17.6.2007 | 11:55
Múhameðstrúarmaður, Gyðingur, Kaþólikki og Mótmælandi
Heima á Flateyri gerðist það einu sinni að fjórir unglingar sátu saman og ræddu heima og geima. Það var rætt saman á ensku sem er jú annað tungumál okkar Flateyringa.
Það var rætt um kvótakerfið, fólkið í þorpinu, kynjamisrétti og margt fleira skemmtilegt sem unglingar tala um, eða þannig.
Á einhverjum tímapunkti barst talið að trúarbrögðum og þegar allir höfðu sagt hvaða trú þeir tilheyrðu settu menn hljóðan.
Hér lengst norður í ballarhafi sátu fjórir einstaklingar sem höfðu alist upp við það að a.m.k. líta þá hornauga sem tilheyrðu hinum trúarbrögðunum. Í sumum löndum eiga þessi trúarbrögð jafnvel í stríði.
En á Íslandi sátu þessir vinir saman við stofuborð vestur á fjörðum og brostu hver til annars, hér voru öll dýrin í skóginum vinir. Hér var ekki krafa um hatur eða yfirráð heldur fengu allir að vera unglingar og tala um kvótakerfið, fólkið í þorpinu, kynjamisrétti og margt skemmtilegt sem unglingar tala um.
Við þessar aðstæður ólumst við Björn Ingi vinur minn upp vestur á Flateyri og þessa arfleið verðum við að hlúa að. Allir einstaklingar hafa eitthvað gott að leggja til samfélagsins, það er okkar allra að tryggja það ekki síst með hugarfari okkar og umtali um meðborgara okkar.
Björn Ingi: breytt samsetning íslensku þjóðarinnar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.