18.12.2006 | 20:39
Geðræktarkassinn
Það er ekki á hverjum degi sem á vegi okkar verða hugmyndir sem geta breytt lífi okkar og okkar nánustu. Hugmyndin um geðræktarkassann sem kynnt var fyrir mér og sjálfsagt mörgum fleirum í þættinum 6 til sjö á Skjá 1 rétt áðan er ein af þessum hugmyndum. Þar kynnti kona að nafni Elín Ebba fyrir okkur hugmyndina að þessum kassa og fór yfir forsögu hans.
Ég ætla ekki að dvelja við þá sögu heldur bendi ykkur á slóðina www.lydheilsustod.is þar sem þið getið fræðs um þessa merkilegu sögu.
Mig langar hins vegar hvetja ykkur til að koma ykkur upp svona kassa. Hugmyndin á bak við hann er að þegar okkur líður illa eða andstreymi er í lífinu að þá getum við gengið að hlutum, persónulegum hlutum og/eða skemmtilegum sem létta okkur lundina. Ég lít ekki á þessa hugmynd sem einkamál þeirra sem eru geðveikir eða þunglyndir heldur tækifæri fyrir okkur öll. Það er jú þannig að öll þurfum við á uppörvun að halda á einhverjum tímapunkti í lífinu og þá er gott að geta leitað í minningarnar og eða léttleikann til að beina hugsun okkar og tilfinningum í rétta átt. Það er jú auðveldara að ná árangri í lífinu og ná sér upp úr lægð ef maður nær að létta hug sinn og sál.
Grundvallarhugmyndin um árangur í lífinu er að þekkja hinar þrjár grunneiningar árangurs en þær eru þekking, áhugi og framkvæmd. Við getum fræðst og leitað þekkingar um geðræktarkassann á ofangreindri vefsíðu og ef áhuginn á því að bæta andlegt ástand fjölskyldunnar eða þíns sjálfs er fyrir hendi þá er bara eitt eftir.... það er að framkvæma.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.12.2006 | 07:53
Elskaðu tækifærið
Einhver hefur sjálfsagt sagt við þig að þú eigir að elska vinnuna þína en það þarf hins vegar ekki endilega að vera sannleikurinn. Sannleikur er einfaldlega sá að þú átt að elska tækifærið. Tækifæri til að smíða þitt eigið líf, framtíð, heilsu, árangur og ríkidæmi.
Það heillar þig kannski ekki að rífa þig á fætur og arka af stað og berja á dyr einhvers en það sem kann að bíða þín handan hurðarinnar er kannski tækifærið sem þú ert að leita að.
Einhver kann að spyrja; á ég að elska það að sópa gólfið á smíðaverkstæðinu?.. Nei þú átt ekki að gera það en ef þetta er fyrsta skrefið í því að klifra stigann alla leið á toppinn áttu að segja við sjálfa/n þig: ,,Ég er ánægður með að einhver gaf mér þetta tækifæri á að sópa gólfin og ég skal gera það vel en ég ætla mér lengra". Til að komast upp stigann þarf maður að stíga í fyrstu tröppuna.
Verum þakklát fyrir öll þau tækifæri sem við fáum. Staðurinn sem við erum á í dag er kannski ekki sá staður sem við viljum vera á en hugsanlega er hann aðeins skref í átt að þeim stað sem við viljum vera á.
Ef við erum ánægð í vinnunni og hvetjum aðra til þess að vera það, þá munu dyr tækifæranna opnast okkur eða eins og bróðir minn segir oft; If opportunity doesn´t knock, build a door.. eða ,,Ef tækifærin banka ekki, byggðu þér hurð".
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.12.2006 | 20:18
Með eða á móti?
Á hverjum einasta degi þurfum við að takast á við aðstæður og fólk sem er á móti okkar skoðunum eða lifnaðarhætti. Við þekkjum fólk sem jafnvel byggir tilveru sína á því að vera á móti öðrum.
Slík hugsun og aðgerðir tengdar því eru því miður ekki fallnar til þess að minnka það sem þetta fólk er á móti heldur þvert á móti. Það sem þú berst gegn eflist við það eitt að það sé einhver á móti. Þetta er eitt af grundvallarhugmyndum sem við þurfum að temja okkur.
Móðir Teresa vissi þetta leyndarmál. Við getum öll verið sammála því að hún er einn merkasti einstaklingur síðustu aldar fyrir friðarstarf sitt og hjálp við hina bágstöddu. Hvað sagði hún þegar henni var boðið að taka þátt í mótmælagöngu gegn stríði? Sagði hún ,,ég mæti, það veitir sko ekki af að mótmæla stríði"? Nei, nei og aftur nei hún sagði og leggið þessi orð á minnið: NEI EN LÁTIÐ MIG VITA ÞEGAR ÞIÐ FARIÐ MEÐMÆLAGÖNGU MEÐ FRIÐI.....
En hvers vegna er ég að velta þessu upp núna, jú vegna þess að mér finnst við íslendingar vera að leiðast út í þetta far þ.e. að vera á móti. Hér áður fyrr höfðum við hreyfingar sem börðust fyrir einhverju eins og t.d. Ungmennafélögin sem börðust fyrir sjálfstæði landsins og hreyfingu landans, þau eru en á lífi í dag og gegna mikilvægu hlutverki. Í dag getur maður varla opnað blöðin án þess að sjá skilaboð frá einhverjum sem vill berjast gegn nauðgunum, stríði, fátækt, umferðarslysum og mörgu mörgu fleiru. Vissulega eru þetta allt mál sem við þurfum að taka á en við verðum sem þjóð að taka okkur á og fara að breyta hugsunarhætti okkar.
Það er margt skelfilegt í heiminum en við hjálpum ekki til með því að vera á móti því. Við verðum að berjast fyrir hinu gagnstæða og þannig skapa rými fyrir eitthvað annað en það sem við erum á móti.
Fátæku fólki gagnast það ekki að við séum á móti fátækt, heldur það að við séum að berjast fyrir því að allir hafi það gott.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
17.12.2006 | 00:03
Haga seglum eftir vindi
Einn allra besti fyrirlesari sem ég hef heyrt og hitt er Jim Rohn. Ég man alltaf þegar hann byrjaði fyrirlestur sinn "setting your sails".
Setting your sails eða að haga seglum eftir vindi skýrir svo margt í okkar lífi.
1. Það skiptir ekki máli hvaðan vindurinn blæs því með því að stilla seglin komumst við á leiðarenda.
2. Hraði vindsins ræður ekki hraða skipsins heldur hversu mikið af vindinum blæs í okkar eigin segl.
Hversu oft kennum við ekki öðrum um hvernig ástatt er í lífi okkar. Hversu oft finnst okkur ekki eins og allir aðrir fái þau tækifæri sem við viljum.
Um leið og við áttum okkur á því að allt okkar líf snýst um það að hagræða okkar eigin seglum þá mun okkur byrja að ganga vel í öllu því sem við tökum okkur fyrir hendur.
Við getum öskrarð upp í vindinn og á stjórnmálamennina. Við getum horft á vindinn þjóta framhjá án þess að komast í seglin okkar og líka horft á alla þá sem njóta velgengni bruna fram hjá á nýja flotta bílnum sínum. Oft þurfum við ekki nema að stilla seglin um nokkra millimetra til að ná bátnum á rétta stefnu.
Hvernig væri að slökkva á sjónvarpinu og eða tölvunni eina kvöldstund og fara yfir fjármálin eða hjónabandið, það er að stilla seglin í sínu eigin lífi, viljum við ekki öll ná árangri og eignast betra líf? Stundum þurfum við bara að stilla seglin okkar.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.12.2006 | 17:25
Hvernig vaknaðir þú í morgun
Það er svo merkilegt hvað við veltum oft lítið fyrir okkur hvað fyrstu tvær mínútur dagsins skipta okkur oft miklu máli. Á þessum tveim mínútum erum við oft búin að ákveða hvernig dagurinn verður hugarfarslega og já þá líka veraldlega.
Hugarfar okkar og hugsun hefur ekki bara áhrif á líðan okkar heldur líka á umhverfi okkar og samskipti við aðra. HVer kannast ekki við það að laðast frekar að fólki sem er jákvætt og skemmtilegt en síður að fýlupúkanum sem heilsar þér ekki þegar þú mætir í vinnuna.
Temjum okkur það að fara tímarlega á fætur og byrja daginn á því að þakka fyrir það sem við höfum. Í fyrsta lagi skulum við þakka fyrir okkur sjálf, að fá að takast á við lífið, síðan skulum við þakka fyrir alla þá einstaklinga sem okkur þykir vænt um. Við skulum líka þakka fyrir húsaskjólið sem við höfum hversu lítið eða ómerkilegt það er þá er það þó okkar húsaskjól. Við skulum líka þakka fyrir öll þau tækifæri sem verða á okkar leið og færa okkur heim sanninn um kraft okkar og styrk.
Þegar við höfum þakkað fyrir allt sem við eigum skulum við temja okkur það að brosa og láta ekki smámál eins og það að tannkremstúpan sé tóm skemma fyrir okkur daginn.
Það er alveg ótrúlegt hvað líf okkar mun breytast með því að temja okkur þetta hugarfar, fólk fer ósjálfrátt að hjálpa þér og aðstoða því það langar til þess því þú ert svo jákvæður einstaklingur.
Munum bara orð Megasar: Smælaðu framan í heiminn og þá mun heimurinn smæla framan í þig...
Lífstíll | Breytt 18.12.2006 kl. 00:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)