15.1.2007 | 00:02
Sorgin og tíminn
Það er gaman að þykja vænt um einhvern og það er gott að elska en á sama hátt er erfitt að sakna og óbærilegt að missa.
Því meiri sem væntumþykjan er þeim mun meiri er sorgin sem við upplifum um ævina.
Eftir að ég upplifði á sínum tíma allan tilfinningaskalann eftir snjóflóðið heima á Flateyri hef ég velt þessu fyrir mér þ.e. sorginni.
Það var nefnilega sagt við okkur að tíminn læknaði öll sár. Í tíu ár reyndi ég að lækna sárin með tímanum en þau fóru aldrei. Ég var aldrei sáttur.
Það var ekki fyrr en á tíu ára minningarathöfninni sem ég loksins fékk ró í sálina og hjartað. Það var eins og dyrnar hefðu opnast og ég gat opnað hjarta mitt að nýju.
En hvað var það sem breytti lífi mínu svona?
Orð Vigdísar Finnbogadóttur þetta kvöld breyttu öllu fyrir mig og voru þau þessi:
,,Tíminn læknar engin sár en með tímanum lærum við að lifa með sorginni"
Í dag hef ég lært að lifa með sorginni og leifi á ný væntumþykju til vina minna sem dóu að koma til mín, fyrir það er ég þakklátur.
Í dag þakka ég fyrir þann tíma sem ég fékk með þeim og eiga þeir stað í mínu hjarta og á þeim stað er bæði gleði og sorg og ég hef lært að lifa með því.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
14.1.2007 | 13:18
Máttur orðsins VIÐ
Í öllu sem við tökum okkur fyrir hendur hvort sem það er fjölskyldulíf eða vinna að þá er gott að þekkja muninn á því að segja ég eða við. Máttur orðsins við er slíkur að við getum breytt lífi fólks og rekstri fyrirtækis.
Ég man þegar ég var ungur drengur í sveitinni og var í fjárhúsunum ásamt föður mínum. Ekki man ég lengur hvað við vorum að gera en ég man að ég hélt á einhverju tæki sem við vorum með í láni. Einhvern veginn atvikaðist það þannig að mér tókst að brjóta það. Þegar svo maðurinn sem átti tækið koma til að sækja það sagði faðir minn við hann ,,Þetta brotnaði hjá okkur", þið getið ekki ímyndað ykkur hvernig mér leið, faðir minn hafði deilt ábyrgðinni með mér.
Með því að nota orðið ,,við" getum við fengið fólk til að vinna með okkur rétt eins og það ætti jafna hagsmuni og við því við notum orðið við.
Við verðum samt að passa okkur að nota orðið við öll tækifæri hvort sem þau eru á erfiðum tímum eða góðum tímum. Fögnum með fólki og stöndum með fólki.
Til dæmis þá er það merki um gott fyrirtæki ef starfsmenn þess nota orðið VIÐ, takið eftir þessu. Eins er það sama um fjölskyldur ef þau nota þetta orð þá er fjölskyldan samstíga og samhuga.
Enda skuluð þið velta fyrir ykkur orðinu VIÐbrögð, segir það ekki allt sem segja þarf.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.1.2007 | 21:34
Kletturinn í hafinu
Það er mikilvægt fyrir okkur öll að búa yfir innri styrk, styrk sem við getum alltaf leitað í þegar þörf er á. Þetta er okkur mikilvægt rétt eins og í Harry Pottermyndinni þegar Harry þurfti að hugsa ánægjulegustu hugsunina til að geta sigrast á því sem hann óttaðist mest, hugsugunni.
Við þurfum öll að eiga minningar eða öllu heldur myndir í huganum til að takast á við hina ýmsu tilfinningar sem hrærast innra með okkur.
Alveg frá því ég man eftir mér hef ég alltaf geymt í huga mínum mynd af klettinum í hafinu, óhagganlegur og óbugaður. Eftir því sem ég verð eldri hefur mér þótt meira og meira vænt um þessa mynd í huga mér, kletturinn í hafinu.
Stundum er sjórinn sléttur og fagur og sólin situr yfir vatnsfletinum og allt er kyrt og hljótt en stundum skella öldurnar og regndroparnir á klettinum í myrkrinu.
Aldrei haggast kletturinn í hafinu en það eina sem gerist er að hann slípast til og ber merki þess sem á daga hans hefur drifið.
,,Ég er kletturinn í hafinu og á hverjum morgni kemur sólin upp og vermir mig"
Þannig byrja ég hvern dag, hver er þín mynd af þínum styrk?
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
11.1.2007 | 07:49
Fuglasöngur
Hversu miklu skipta hæfileikar í lífinu? Eigum við einungis að gera það sem við erum mjög góð í? Hvernig verður reynsla til? Þessum spurningum höfum við öll sjálfsagt vellt fyrir okkur. Hvers vegna ættum við að fara í vinnu sem við kunnum ekki og krefst þess að við kunnum svo mikið. Allir þessir frábæru einstaklingar sem gera vinnu sína svo vel, hvers vegna ættum við ekki að fá minnimáttarkennd yfir því.
Í sambandi við þetta dettur mér alltaf í hug gamalt máltæki sem segir:
Ef einungis þeir fuglar syngju sem best syngju, þá væri óneytanlega hljótt í skóginum.
Þetta máltæki segir allt sem segja þarf, við megum ekki hætta að syngja þó allir séu svo góðir í kringum okkur því þá þagnar skógurinn.
Gerum það sem okkur langar til og með reynslu og stöðugum söng náum við þeim árangri sem við sækjumst eftir og kannski á einhverjum tímapunkti munum við tilheyra þeim bestu en þangað til syngjum við með hinum.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.1.2007 | 00:10
Minningargrein
Á stórum tímamótum í lífi manns þarf maður að glíma við grundvallarspurningar um líf manns. Til þess að átta sig á því hvað það er sem skiptir máli og hvað maður þarf að hugsa um, er kannski ekki alltaf augljóst og oft erfitt fyrir okkur að átta okkur á því.
Fyrir margt löngu var mér bent á eina góða aðferð til að átta sig á þessum grundvallaratriðum þ.e. átta sig á því hvað það væri raunverulega sem skipti máli.
Þessi aðferð var að skrifa sína eigin minningargrein.
Ef við ætlum vikilega að taka á öllum hliðum okkar lífs þá mundum við skrifa fjórar greinar, eina almennt um lífshlaup okkar, eina sem barn okkar eða börn skrifuðu eða annar fjölskyldumeðlimur, eina sem vinur skrifaði og svo eina sem kæmi frá vinnufélaga eða þekktri persónu.
Hvað viljum við skila eftir okkur eða eins og segir í Hávamálum:
Deyr fé
Deyja frændur
Deyr sjálfur hið sama
En orðstýr deyr aldrei
sá er sér góðan getur
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.1.2007 | 23:13
Hver ber ábyrgð á þínu lífi?
Hver ber ábyrgð á okkar lífi? Erum það við eða einhver annar?
Skoðum aðeins málið:
Það mætir enginn í vinnuna fyrir okkur....
Foreldrar okkar passa börnin okkar en þau setja þau ekki á leikskóla....
Bankastjórinn lánar okkur peninga en hann borgar ekki af lánunum....
Það þarf tvo í hjónaband ekki bara hinn !!....
Það erum við sjálf sem berum ábyrgð á okkar lífi en enginn annar. Það er enginn þarna úti að arisera öllu fyrir okkur. Við þurfum sjálf að setja okkur markmið og drauma því annars erum við að vinna eftir markmiðum og draumum annara.
Munið það að dagurinn í dag er hugsun okkar í gær en dagurinn á morgun er hugsun okkar í dag.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
7.1.2007 | 23:39
Segðu vini þínum frá
Eitt af því sem gott er að temja sér í lífinu er að segja vini sínum frá þegar maður fær hugmynd sem maður telur að viðkomandi geti nýtt sér.
Ég man eftir sögu einni um kennara nokkurn sem var að kenna börnum þennan eiginleika. Hann helti vatni í glas þar til það var fullt. Sagði síðan börnunum að vatnið í glasinu væru allar þær hugmyndir sem við fengjum og vildum framkvæma. Hann spurði síðan börnin hvernig hægt væri að fá fleiri hugmyndir þ.e. bæta vatni í glasið.
Svarið var einfalt, hella út glasinu og bæta svo í.
Með því að setja frá sér hugmynd til vinar þá getur maður verið að fá betri hugmynd til baka um sama viðfangsefni.
Eins með því að leitast við að koma hugmyndum til vina munu þeir gera slíkt hið sama við okkur. Temjum okkur þennan góða eiginleika.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.1.2007 | 00:27
Leiðindi og vanlíðan
Oft kemur sá tími í lífi okkar að við þurfum að eiga við vanlíðan og jafnvel leiðindi í lífi eða starfi. Til dæmis er oft erfitt að takast á við vanafasta vinnu sem oft er kannski ekki gefandi. Eins getum við öll átt við tímabundna erfiðleika að stríða í lífi okkar. Sem manneskjur þurfum við að takast á við lífið í allri sinni mynd. Lífið er eins og árstíðirnar, stundum er vetur og stundum er sumar.
Í því sambandi er oft gott að rifja upp erindi úr kvæði indverska búddameistarans Shantideva en það hljóðar svo:
Svo lengi sem veröldin varir
og verur á jörðu eru til
þá megi ég lifa líka
og lofa allt sem ég skil
Að íhuga víðfeðmi hugans og ásetja okkur að gera okkar besta til langframa, það skiptir öllu.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 00:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.1.2007 | 22:56
Eftir vetur kemur vor
Í lífi hvers manns kemur vetur og þá kemur í ljós hversu sterkur einstaklingur maður er og hvernig mann maður hefur að geyma.
Við megum ekki gleyma því að það er hvorki leiðin okkar né takmarkið sem skiptir máli í lífinu heldur hvað við verðum sem einstaklingar.
Stundum komumst við að því að við erum ekki á réttri leið og stundum komumst við að því að við munum ekki ná takmarkinu, þá er vetur. Hríðin getur verið köld og grimm en þá er gott að eiga góða fjölskyldu og góða vini sem kíkja í kaffi og drekka heitt kakó með manni og styðja við bakið á manni.
Ef við ræktum vini og fjölskyldu þá munum við ná að halda á okkur hita þrátt fyrir fimbulkaldan vetur og komum sterk til leiks þegar fyrsta rósin springur út að vori.
Ræktum okkur sjálf og lærum af vegferð okkar sjálfra og notum ekki veturinn sem afsökun heldur ástæðu til að undirbúa stórkostlega hluti. Ræktum fjölskyldu okkar og vini til að eiga góða að þegar vetur kemur því veturinn mun alltaf koma rétt eins og vorið og sumarið.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.1.2007 | 00:09
Farðu framtíðina
Viltu að einhver hlutur gerist, hlutur sem þú virkilega þarft á að halda. þarftu til dæmis að fá lán í banka, sækja um vinnu eða einfaldlega að einhverjir hlutir gangi upp.
Setjum sem svo að þú rekir fyrirtæki og villt sjá fyrir þér að þú náir samningi í höfn þá skaltu gera eftirfarandi: Farðu heiman frá þér á þann stað þar sem tilkynnt verður um samninginn eða samningaviðræður fara fram (t.d. keyra fram hjá húsinu) og sjáðu fyrir þér að hlutirnir gangi upp, farðu í vinnuna og gagtu um húsið og sjáðu fyrir þér þar sem þú fagnar með starfsmönnunum.
Finndu fyrir fögnuðinum og leyfðu draumunum og tilfinningunum að koma til þín. Finndu gleðina ná tökum á þér og sannfæringunni.
Með þessu ertu að búa þér þína framtíð, dagurinn á morgun er eins og þú hugsar hann í dag. Með vissunni og tilfinningunni nærð þú að fanga morgundag drauma þinna. Ekkert er öflugra en þinn eiginn hugur og þínar eigin tilfinningar.
Er ekki kominn tími til að morgundagurinn sé þín markmið og þínir draumar.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)