15.1.2007 | 00:02
Sorgin og tíminn
Það er gaman að þykja vænt um einhvern og það er gott að elska en á sama hátt er erfitt að sakna og óbærilegt að missa.
Því meiri sem væntumþykjan er þeim mun meiri er sorgin sem við upplifum um ævina.
Eftir að ég upplifði á sínum tíma allan tilfinningaskalann eftir snjóflóðið heima á Flateyri hef ég velt þessu fyrir mér þ.e. sorginni.
Það var nefnilega sagt við okkur að tíminn læknaði öll sár. Í tíu ár reyndi ég að lækna sárin með tímanum en þau fóru aldrei. Ég var aldrei sáttur.
Það var ekki fyrr en á tíu ára minningarathöfninni sem ég loksins fékk ró í sálina og hjartað. Það var eins og dyrnar hefðu opnast og ég gat opnað hjarta mitt að nýju.
En hvað var það sem breytti lífi mínu svona?
Orð Vigdísar Finnbogadóttur þetta kvöld breyttu öllu fyrir mig og voru þau þessi:
,,Tíminn læknar engin sár en með tímanum lærum við að lifa með sorginni"
Í dag hef ég lært að lifa með sorginni og leifi á ný væntumþykju til vina minna sem dóu að koma til mín, fyrir það er ég þakklátur.
Í dag þakka ég fyrir þann tíma sem ég fékk með þeim og eiga þeir stað í mínu hjarta og á þeim stað er bæði gleði og sorg og ég hef lært að lifa með því.
Athugasemdir
Þu átt að vernda og verja
þótt virðis það ekki fært,
allt sem er hug þínum heilagt
og hjarta þínu kært.
Vonlaust getur það verið
þótt vörn þín sé djörf og traust.
En afrek í ósigrum lífsins
er aldrei tilgangslaust.
GIK
Halla Signý (IP-tala skráð) 16.1.2007 kl. 21:33
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.